Ég hitti nokkrar vinkonur reglulega til að prjóna og stundum hef ég saumað út sérstaklega sl. ár. Núna er öxlin þokkaleg og ég hef verið að prjóna þónokkuð og rakið upp þónokkuð.
Síðastliðin föstudag hittumst við enn og aftur hjá einni í Reykjavík. Þær sem vildu máttu taka með sér pakka og taka þátt í happdrætti. Sem sagt ég fékk pakka og í því var garn úr Handprjón. Minn pakki var einnig úr Handprjón reyndar ekki sama garnið, þægilegt að versla þar þegar þú kemur úr Grindavík. Það komu fleiri pakkar úr Handprjón og sumar höfðu meira að segja valið sama garnið og litinn. Því miður var ég ekki eins heppin og í síðasta prjónahittingi og vann ekki happdrættisvinningin.
Ákveðið var að hafa vettlingaþema í pökkunum og einnig ákváðu sumar að prjóna vettlinga þar á meðal ég.
Ég á fullt af garni sem ég get notað í vettlinga og ákvað að nota kambgarnsafganga. Uppskriftin er úr Hlýjum höndum. Er ekki viss um hvað mér finnst um litasamsetninguna hjá mér en það jákvæða er að ég er að nýta afgangana. Einnig gerði ég þæfða vettlinga úr Álafosslopa. Uppskriftin finnst í Vettlingar og fleira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli